Loftslagsmál

Loftslagshamfarir virtust linnulausar á heimsvísu árið 2021; flóð í Vestur-Evrópu og Kína, skógareldar í Síberíu og á vesturströnd Bandaríkjanna og hvirfilbyljir geisuðu á Filipseyjum og víðar. Meira að segja við á Íslandi, voru öfgar í veðri eins og þurrkar á Norður- og Austurlandi og gróðureldar geisuðu í Heiðmörk þar sem starfsfólk Veitna þurfti að hafa hraðan á til að verja þar mannvirki á vatnstökusvæðum.

OR samstæðan er í fararbroddi meðal íslenskra fyrirtækja á sviði loftslagsmála og frammistaða fyrirtækisins í loftslagsmálum skiptir máli. Carbfix aðferðin sem beitt er við Hellisheiðarvirkjun er skýrt dæmi um að það er mögulegt að grípa til aðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og úr þeirri loftslagsvá sem við stöndum frammi fyrir.

Þær breytingar sem hafa orðið á neysluhegðun í íslensku samfélagi síðan Covid heimsfaraldurinn hófst vorið 2020 eru teikn um að hægt sé að breyta neyslumynstri fólks til frambúðar og hafa þannig jákvæð áhrif á loftslag og umhverfi. Það endurspeglast í aukinni fjarvinnu og minni ferðalögum sem hafa bein áhrif á kolefnissporið. Dæmi eru um að kolefnissporið hafi minnkað hjá sumu starfsfólki OR samstæðu um þrjú tonn árið 2021.

Áhersla samstæðu OR í loftslagsmálum:

  • Stefna á kolefnishlutleysi 2030, þar af sporlausa Hellisheiðarvirkjun 2025 og Nesjavallavirkjun 2030
  • Auka föngun og förgun koltvíoxíðs á lands- og heimsvísu
  • Vera drifkraftur í orkuskiptum í samgöngum

Það er á ábyrgð okkar allra að bægja burt loftslagsvánni. Ríki og sveitarfélög verða að gera sitt, fyrirtæki þurfa að taka sig taki og hvert og eitt okkar getur lagt lóð á vogarskál þess að jörðin verði lífvænlegri fyrir komandi kynslóðir. Í myndbandinu að neðan um sporlétta vinnslu og starfsemi OR kemur fram að stefnt er að því að stór hluti koltvíoxíðs og brennisteinsvetnis frá jarðvarmavirkjunum OR verði fangað og bundið í berg.

Í köflum sem varða loftslagsmál er gerð grein fyrir losun gróðurhúsalofttegunda frá starfseminni og greint frá verkefnum sem ráðist er í til að markmiðið um kolefnishlutleysi árið 2030 náist.