Losun vegna fráveitu

Styður heimsmarkmið
Sameinuðu þjóðanna
Líf í vatni

Veitur annast uppbyggingu og rekstur fráveitu í þéttbýli í Reykjavík, á Akranesi og í Borgarbyggð. Frárennsli frá Kópavogi, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi auk hluta Garðabæjar er hreinsað í hreinsistöðvum við Ánanaust og Klettagarða, alls frá um 60% þjóðarinnar.

Frárennsli frá um 60% þjóðarinnar er hreinsað í hreinsistöðvum við Ánanaust og Klettagarða í Reykjavík.

Frárennsli frá um 60% þjóðarinnar er hreinsað í hreinsistöðvum við Ánanaust og Klettagarða í Reykjavík.

Hreinsistöðvar á Vesturlandi

Hreinsistöðvar á Vesturlandi.

Á safnsvæði Veitna hafa íbúar og atvinnulíf aðgang að veitukerfi og skólphreinsun í samræmi við lög og reglur.

Langtímamarkmið Veitna er að strendur verði ávallt hreinar enda eru fjörur gjarnan skilgreindar sem útivistarsvæði í aðalskipulagi sveitarfélaga. Losun óhreinsaðs skólps um yfirfallsútrásir er þó órjúfanlegur hluti þess fráveitukerfis sem byggt hefur verið upp á liðnum áratugum. Svo mun verða um næstu framtíð meðan blöndu skólps og ofanvatns er veitt um safn- og flutningskerfi fráveitunnar, það á við um 28% af kerfinu.

Dæmi um aðgerðir til að nálgast fyrrnefnda framtíðarsýn og hafa gengið vel eru markviss lekaleit, breytt verklag í viðhaldi dælustöðva og umfangsmiklar fjárfestingar í lagnakerfinu til að beina ofanvatni frá skólpkerfinu, svo sem við Hlemm og Vesturgötu í Reykjavík. Breytt verklag hefur árið 2021 aukið rekstraröryggi og í auknum mæli hefur verið unnt að sinna viðhaldi án þess að stöðva rekstur og losa óhreinsað skólp í sjó. Sú nýjung var prófuð og reyndist vel árið 2021, að skólp frá hreinsistöðinni í Ánanaustum var hreinsað að hluta þrátt fyrir að taka þurfti stöðina úr rekstri vegna brýns viðhalds. Þessar aðgerðir stuðla ennfremur að bættu vinnuumhverfi og öryggi starfsfólks. Unnið er að langtímaáætlunum um fulla aðgreiningu óviðkomandi vatns frá skólpkerfinu, en sú vinna er vel á veg komin t.d. í Vatnsmýri, Laugalæk og Rauðará, líkt og sjá má á ytri vef Veitna undir yfirskriftinni „Ofanvatnsáætlanir“.

Umhverfisvöktun fór fram sumarið 2021 við meginútrásir hreinsistöðva Veitna úti fyrir Sundunum við Reykjavík og í Hofsvík við Kjalarnes. Ræktaðir voru kræklingar við útrásirnar til að rannsaka afdrif þeirra og til að afla sýna úr mjúkvef til efnagreininga. Auk þess voru tekin vatnssýni úr sjónum við útrásirnar. Með þessu má meta hvort losun hreinsaðs skólps valdi mælanlegum áhrifum í sjónum, og ef svo er, í hve miklu mæli. Niðurstöður eru væntanlegar á fyrsta fjórðungi ársins 2022.

Í grennd við yfirfallsútrásir Veitna í Reykjavík og víðar meðfram strönd borgarinnar reyndust 87 sýni af 100 vera undir viðmiðunarmörkum um saurkólígerla sem þýðir mjög lítil saurmengun. 93 sýni voru undir viðmiðunarmörkum um saurkokka. Á Akranesi reyndust 86 sýni af 100 vera undir viðmiðunarmörkum um saurkólígerla og 93 sýni voru undir viðmiðunarmörkum um saurkokka.

Örverustyrkur í grennd við útrásir frá lífrænu hreinsistöðvum Veitna á Vesturlandi hefur mælst yfir mörkum sem skilgreind eru starfsleyfi undanfarin ár. Sumarið 2021 var sett af stað umbótaverkefni vegna þessa.

Allar niðurstöður sýnataka og -greininga fráveitu Veitna má sjá í árlegum yfirlitsskýrslum sýnatöku og mælinga sem aðgengilegar eru á vef Veitna.

Blágrænar ofanvatnslausnir

Veitur vinna áfram að innleiðingu blágrænna ofanvatnslausna í samvinnu við sveitarfélög til að hægja á rennsli regnvatns af götum, vegum og öðrum svæðum ofan í fráveitukerfið og draga úr líkum á losun um yfirföll í fráveitukerfinu. Íbúar og fyrirtæki hafa sýnt aukinn áhuga á að hefta afrennsli af lóðum með þessum lausnum.

Ábyrg neysla

Veitur hafa ítrekað hvatt fólk til að nota salernin ekki sem ruslafötur þar sem sótthreinsi- og blautklútar ásamt öðru rusli veldur álagi á búnað og umhverfið.