Ávarp stjórnarformanns

Brynhildur Davíðsdóttir

Um þessar mundir er Eigendastefna Orkuveitu Reykjavíkur áratugargömul. Hún reyndist einkar heilladrjúg við endurreisn og endurmótun Orkuveitu Reykjavíkur og leiðarljós hennar hafa verið okkur stjórnarfólki traustur vegvísir þegar tekist er á við verkefni líðandi stundar.

Drög að Eigendastefnunni voru kynnt almenningi til umsagnar árið 2011 og um mitt ár 2012 var hún samþykkt af borgarstjórn Reykjavíkur, bæjarstjórn Akraness og sveitarstjórn Borgarbyggðar. Á öllum stöðum hlaut hún einróma samþykki enda hafði verið vandað vel til undirbúnings hennar og hlustað eftir mismunandi sjónarmiðum. Eins og eðlilegt er um fyrirtæki af stærð Orkuveitu Reykjavíkur og umsvif hennar og dótturfyrirtækjanna, sýnist oft á tíðum sitt hverjum í einsökum atriðum starfseminnar. Ágreiningur meðal eigenda fyrirtækisins um hlutverk þess og áherslur heyrir á hinn bóginn nánast sögunni til.

Leiðarljósið

Þetta er leiðarljós Eigendastefnunnar frá 2012:

Í starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur skal áhersla lögð á virðingu gagnvart umhverfinu, ábyrga nýtingu auðlinda og ábyrga nýtingu fjármuna. Orkuveita Reykjavíkur kemur fram af heilindum og trausti og rækir samfélagslega ábyrgð í starfsemi sinni. Fyrirtækið ber hag samfélagsins fyrir brjósti og umgengst náttúruna, auðlindir og viðskiptavini af virðingu. Eigendur vilja að litið verði til fyrirtækisins sem trausts samstarfsaðila, sem eftirsóknarvert sé að starfa fyrir og með og að það gegni veigamiklu hlutverki í samfélaginu.

Í framhaldinu eru síðan skýrð hlutverk eigenda og lagðar línur um valdmörk og ábyrgð stjórnar fyrirtækisins með það að markmiði að tryggja lýðræðislega, gagnsæja, faglega og skilvirka stjórnun. Árlega er eigendum gefin formleg skýrsla um það hvernig stefnu þeirra er framfylgt.

Viðfangsefni stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur hafa breyst nokkuð frá því Eigendastefnan var samþykkt. Fyrstu ár hennar snerust mikið um að rétta við fjárhaginn eftir Hrunið en einnig að útfæra Eigendastefnuna með formlegum hætti. Eina endurskoðun stefnunnar var gerð þegar Orkuveitu Reykjavíkur var skipt upp að lagaboði árið 2014. Þá gengu í gildi ný lög um Orkuveitu Reykjavíkur og ýmis stjórnarháttaákvæði upphaflegrar Eigendastefnu voru flutt yfir í sameignarsamning eigenda.

Tækifæri til samtals

Eigendastefna OR er ennþá – tíu árum eftir að hún var upphaflega samþykkt – eina eigendastefna orkufyrirtækis á Íslandi enda þótt slík fyrirtæki hér á landi séu nánast öll í opinberri eigu. Starfsemi orku- og veitufyrirtækja er í eðli sínu fastheldin, ekki síst af því að horfa þarf til verulega langs tíma í rannsóknum, fjárfestingum og rekstri en breytingar sem orðið hafa á ýmsu í umhverfi starfseminnar á síðasta áratug eru tilefni til skipulegs samtals um áherslur í starfseminni. Engir eru betur fallnir en eigendur fyrirtækisins til að endurspegla breytingu samfélagslegra viðhorfa til starfseminnar og þess hvernig til dæmis ný orkustefna fyrir Ísland, loftslagsmarkmið, áhersla á hringrásarhagkerfið og grænar fjárfestingar, snjallvæðing, sjálfvirknivæðing og breytingar á samkeppnismörkuðum ætti að endurspeglast hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Tíu ára afmæli Eigendastefnu Orkuveitu Reykjavíkur, sumarið 2022, gæti verið kjörið tækifæri til að hefja slíkt samtal.

Sjálfbærni

Þegar horft er yfir árið 2021 í starfsemi samstæðu OR í gegnum sjóngler sjálfbærni, þá var árið farsælt í flestu. Fjárhagur styrktist og græn fjármögnun var treyst, einmitt í krafti þess að fjármálamarkaðurinn gefur rekstrinum góðar einkunnir með tilliti til sjálfbærni hans. Kolefnissporið minnkaði lítillega en grunnur var lagður að verulegu framlagi í baráttunni við loftslagsvána með því að Orka náttúrunnar og Carbfix fengu afar rausnarlegan Evrópustyrk til að stíga risaskref í aukinni kolefnisbindingu við jarðgufuvirkjanirnar. Önnur umhverfis- og auðlindamál voru í traustum farvegi, með framsýni að leiðarljósi, og vel var vakað yfir velferð starfsfólks á þeim miklu umbrotatímum sem kórónuveirufaraldurinn hefur borið með sér. Fyrirtækin í samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur eru því vel í stakk búin að hafa forystu um að horft verði til framtíðarinnar sem tækifæris til að efla lífsgæði án þess að ganga of nærri þolmörkum jarðar; að viðskiptavinir fyrirtækjanna viti af þeim sem bakhjarli í uppbyggingu lágkolefnahagkerfis framtíðarinnar.

Heimsmarkmið 5 saman ÍSL.png

OR leggur áherslu á fimm Heimsmarkmiðanna í allri starfsemi samstæðunnar.

Starf stjórnar 2021

Á árinu 2021 hélt stjórn Orkuveitu Reykjavíkur 14 formlega fundi auk vinnudags í mars. Vegna faraldursins voru allir fundir blandaðir, það er að stjórnarfólk gat sótt fundi ef aðstæður þess eða í samfélaginu leyfðu, en annars tekið þátt um fjarfundabúnað. Sú nýbreytni var tekin upp að áheyrnarfulltrúi Starfsmannafélags Orkuveitu Reykjavíkur situr einnig fundi stjórnar, en áheyrnarfulltrúi þess var skipaður eftir að ósk kom fram um það á vinnustofu starfsfólks.

Formlegir eigendafundir OR á árinu voru þrír. Aðalfundur í apríl, eigendafundur um málefni Carbfix í ágúst og svo reglubundinn eigendafundur um fjármál í desember þar sem málefni Carbfix voru einnig til umræðu.

Heimsfaraldur kórónuveirunnar hafði mikil áhrif á samfélagið allt á árinu 2021 ekki síður en árið áður. Það reyndi á og tók víða í vegna faraldursins. Um leið og ég þakka samstarfsfólki í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur fyrir samstarfið á árinu 2021 þakka ég sérstaklega starfsfólki og stjórnendum Orkuveitu Reykjavíkur, Veitna, Orku náttúrunnar, Ljósleiðarans og Carbfix fyrir úthaldið og eljuna við að halda uppi þjónustu og starfsemi allri með svo sáralitlum röskunum sem raun ber vitni. Fyrir það eiga þau heiður skilinn!