Árið í hnotskurn

Árið 2021 var viðburðaríkt og lærdómsríkt í fjölbreyttum rekstri OR og dótturfyrirtækjanna. Hér er stiklað á helstu viðburðum.

11. janúar 2021

Breytingar á hleðsluneti ON

Breytingar á hleðsluneti ON eru kynntar þar sem samningur við N1 er á enda runninn. ON setur upp nýjar hraðhleðslustöðvar í Viðigerði í Húnaþingi og við Bauluna í Borgarfirði og uppfærir búnað víðar en N1 tekur sjálft við hleðsluþjónustu á þjónustustöðvum fyrirtækisins.

21. janúar 2021

Mikill kaldavatnsleki í Vesturbæ

Tilkynnt er um mikinn kaldvatnsleka í lokahúsi vatnsveitu sunnan við aðalbyggingu Háskóla Íslands en mikið vatnsmagn lak inn í byggingar skólans. Lekinn uppgötvaðist í stjórnstöð vatns hjá Veitum þegar vart varð þrýstingsfalls í dreifikerfi kalda vatnsins vestan Snorrabrautar.

24. janúar 2021

Rafmagnssölusamningur OR og Norðuráls opinber

Samkomulag næst milli Orkuveitu Reykjavíkur og Norðuráls um að aflétta trúnaði um rafmagnssölusamning fyrirtækjanna frá árinu 2008.

29. janúar 2021

Okkar er ánægjan!

Orkuveitu Reykjavíkur er veitt aðild að hinu alþjóðlega Nasdaq Sustainable Bond Network (NSBN), sem er sameiginlegur vettvangur útgefenda grænna og samfélagslega ábyrgra skuldabréfa á Nasdaq verðbréfamörkuðunum víða um heim. OR er fyrst íslenskra útgefenda til að fá slíka aðild.

30. janúar 2021

182 hleðslustæði tekin í notkun hjá ON í febrúar

ON tekur í notkun hverfishleðslur á 32 stöðum í Reykjavík og 4 stöðum í Garðabæ sem geta þjónað tveimur til sex rafbílum í hleðslu í senn. Hleðslunum var komið fyrir í samstarfi við sveitarfélögin tvö við almenn bílastæði í þeirra eigu.

15. febrúar 2021

Veitur semja við Securitas um uppsetningu á 160 þúsund snjallmælum

Veitur taka tilboði Securitas í uppsetningu á 160 þúsund snjallmælum hjá viðskiptavinum. Samningurinn er um 1.800 milljóna króna virði.  Um er að ræða mælaskipti á um 102 þúsund rafmagnsmælum, 55 þúsund varmamælum og 3 þúsund vatnsmælum á þjónustusvæði Veitna.

11. mars 2021

Berglind Rán formaður Samorku

Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastýra Orku náttúrunnar er kosin formaður Samorku og er þar með fyrsta konan í sögu samtakanna sem gegnir embætti formanns. Berglind tekur við af Helga Jóhannessyni, forstjóra Norðurorku, sem gegnt hefur stöðunni síðustu fimm ár.

13. mars 2021

OR verður alþjóðlegur jafnlaunaleiðtogi

OR hlýtur viðurkenningu fyrir góðan árangur í jafnlaunamálum hjá samtökum um alþjóðlega jafnlaunavottun. Er þetta í fyrsta sinn sem viðurkenningar fyrir árangur í jafnlaunamálum eru veittar með þessum hætti. „Heiður að vera í hópi fyrstu fyrirtækja,“ segir Víðir Ragnarsson verkefnastjóri jafnréttismála hjá OR.

29. mars 2021

Carbfix fargar koldíoxíði frá SORPU

Carbfix og SORPA hefja tilraunir við að farga koldíoxíð (CO2) sem losnar frá urðunarstað SORPU í Álfsnesi. Með þessu er stefnt að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um allt að 3.500 tonn af CO2 á fyrstu stigum og um allt að 7.500 tonn á ári þegar tilraunafasa lýkur. Samhliða niðurdælingu á CO2 verður þróuð aðferðafræði til að gefa út kolefniseiningar til kolefnisjöfnunar með Carbfix aðferðinni.

14. apríl 2021

Saga fráveitunnar loksins skráð

Bókin CLOACINA – Saga fráveitu kemur út á vegum Veitna þar sem Guðjón Friðriksson sagnfræðingur rekur skólpsögu höfuðborgarinnar síðustu liðlega 100 árin. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fékk bókina afhenta á þeim slóðum er forsíðumynd hennar er tekin sem er í námunda við hið fornfræga almenningssalerni í borginni, Núllið í Bankastræti.

5. maí 2021

Gróðureldar á vatnsverndarsvæðinu í Heiðmörk

Nokkur viðbúnaður er hjá Veitum vegna gróðurelda í Heiðmörk. Vatnsból höfuðborgarinnar, og vatnsverndarsvæðið í kringum þau, eru staðsett í Heiðmörk og afar mikilvægt að þau mengist ekki, t.d. af olíu eða öðrum efnum sem geta komist af yfirborði í gegnum jarðlögin og í grunnvatnsstraumana.

12. maí 2021

Ísland leiðir í nýtingu ljósleiðara í Evrópu

Ísland heldur toppsæti sínu sem það Evrópuland þar sem hæst hlutfall heimila nýtir sér ljósleiðaratengingu til að uppfylla gagnaflutningsþörf heimilisins. Þetta var kynnt á fundi þar sem Fibre to the Home Council Europe kynnti stöðuna í álfunni.

18. maí 2021

Áhugasamur um Carbfix-tæknina

Það er létt yfir Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna þegar hann mætir í Hellisheiðarvirkjun Orku náttúrunnar. Bjarni Bjarnason forstjóri OR tók á móti Blinken, kynnti honum jarðhitanýtinguna og ekki síst Carbfix-tæknina sem ráðherrann reyndist mjög áhugasamur um.

19. maí 2021

Carbfix semur við danskt skipafélag um flutning á CO2

Carbfix og danska skipafélagið Dan-Unity CO2 semja um flutning á CO2 til förgunar í Coda Terminal, móttöku- og förgunarmiðstöð Carbfix í Straumsvík. Skipafélagið sem hefur áratuga reynslu í flutningi á ýmsum gastegundum á sjó mun flytja CO2 á sérhönnuðum skipum sem ganga fyrir vistvænu eldsneyti.

29. maí 2021

Elliðaárstöð nýr sýningarstaður HönnunarMars

Elliðaárstöð tekur þátt í HönnunarMars í fyrsta sinn. Þá hefur verið ákveðið að stöðin verði þátttakandi í hátíðinni á komandi árum. Þetta er liður í að fjölga sýningarstöðum og tengja dalinn hönnun og nýsköpun. HönnunarMars var ekki haldinn í mars vegna faraldursins.

21. maí 2021

Ístak endurbyggir Bæjarhálsinn

Bjarni Bjarnason forstjóri OR og Karl Andreassen framkvæmdarstjóri Ístaks undirrita verksamning um endurbætur á Vesturhúsi, hluta höfuðstöðva OR við Bæjarháls 1. Reiknað er með að verkið taki 22 mánuði.

26. maí 2021

Ný hola á Nesjavöllum lofar góðu

Talsverð eftirvænting er hjá viðstöddum við prófun nýrrar vinnsluholu við Nesjavallavirkjun. Ástæðan er að botn holunnar, sem er tæplega 2,4 kílómetra djúp, er í grennd við botn holu sem er einhver sú heitasta sem boruð hefur verið hér á landi. Nýja holan, kölluð NJ-32, lofar góðu en prófanir munu standa í nokkrar vikur.

28. maí 2021

Leggja ljósleiðara í kappi við hraunstrauminn

Ljósleiðarafólk hefst handa við lagningu ljósleiðara meðfram Suðurstrandarvegi, sunnan eldstöðvanna við Fagradalsfjall. Mikilvægt var að koma rörum í jörðu áður en hraun myndi að loka leiðinni um óvissa framtíð.

7. júní 2021

Skipt um heitt vatn í vesturhluta Reykjavíkur

Hitaveita Veitna breytir afhendingu heits vatns í þeim hverfum Reykjavíkur sem liggja vestan Elliðaáa og á Kjalarnesi. Þau fá þá upphitað vatn frá virkjunum ON á Hellisheiði og á Nesjavöllum í stað vatns úr borholum á jarðhitasvæðum í Reykjavík og Mosfellsbæ. Með þessari aðgerð fær allt höfuðborgarsvæðið í fyrsta sinn allt sitt heita vatn frá virkjunum ON.

10. júní 2021

Glatvarmi á Grundartanga nýttur í hitaveitur?

Elkem Ísland, Veitur og Þróunarfélag Grundartanga ætla í sameiningu að kanna fýsileika þess að nýta varmann sem myndast í járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga til að efla hitaveitur Veitna á Vesturlandi.

14. júní 2021

ON í samstarf við Sjálfsbjörg um aðgengi á hleðslustöðvum

Sjálfsbjörg og ON hafa undirritað samstarfssamning sem miðar að því að tryggja aðgengi hreyfihamlaðra að allri þjónustu og hleðslustöðvum ON um land allt. Bergur Þorri Benjamínsson, formaður Sjálfsbjargar, segir samstarfið mikið gæfuspor sem muni hjálpa fötluðu fólki að taka fullan þátt í orkuskiptum í samgöngum.

21. júní 2021

Heimahleðsla í áskrift í fyrsta sinn á Íslandi

Orka náttúrunnar kynnir nýja byltingarkennda lausn í hröðum heimi rafbílaeigenda. Í fyrsta sinn á Íslandi er nú hægt að fá heimahleðslustöðvar í áskriftarþjónustu í stað þess að rafbílaeigendur fjárfesti sjálfir í slíkum búnaði.

25. júní 2021

Slökkt á götuhleðslum Orku náttúrunnar vegna kvörtunar Ísorku

Orka náttúrunnar sér sig knúna til þess að taka strauminn af þeim 156 götuhleðslum sem fyrirtækið hefur sett upp víðsvegar í Reykjavík. Verður það gert mánudaginn 28.júní og er gert í kjölfar þess að Ísorka kvartaði yfir því að hleðslurnar væru opnar hverjum sem er gjaldfrjálst.

27. júní 2021

Aldargömul Elliðaárstöð

Rafstöðin við Elliðaár er 100 ára en þann 27. júní 1921 tóku Kristján konungur tíundi og Alexandrína drottning fyrstu tvær vélarnar formlega í notkun. Þessa var minnst með látlausri athöfn við Elliðaárstöðina þar sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Bjarni Bjarnason forstjóri OR fluttu ávörp.

28. ágúst 2021

Þjónusta Símans komin á Ljósleiðarann

Nú geta viðskiptavinir Símans sótt þjónustu sína um Ljósleiðarann, hvort sem það er símaþjónusta, internettenging eða sjónvarp. Fyrsti viðskiptavinurinn hefur þegar verið tengdur, en það var heimili Ellenar Ýrar Aðalsteinsdóttur og fjölskyldu.

8. september 2021

Orkuveita Reykjavíkur í fjárfestingaflokk

Alþjóðlega matsfyrirtækið Moody‘s færir Orkuveitu Reykjavíkur (OR; Reykjavík Energy) í fjárfestingarflokk þegar það gaf samstæðunni einkunnina Baa3 sem útgefandi langtímaskuldabréfa. Horfur telur matsfyrirtækið stöðugar.

8. september 2021

Risastórt skref stigið með opnun Orca

Risastórt skref er stigið í Jarðhitagarði Orku náttúrunnar á Hellisheiði þegar Orca, lofthreinsi- og förgunarstöð Climeworks, hefur starfsemi sína. Um er að ræða gríðarstóran áfanga í beinni loftföngun en stöðin getur fangað 4.000 tonn af CO2 á ári hverju, sem hún fjarlægir beint úr andrúmsloftinu á öruggan hátt.

14. september 2021

Siðareglur birgja OR-samstæðunnar kynntar

Orkuveita Reykjavíkur gefur út siðareglur sem vænst er að birgjar fyrirtækjanna í OR-samstæðunni staðfesti að þeir fylgi. Siðareglurnar eru gefnar út í samræmi við áherslur OR í samfélagsábyrgð og forgangsröðun Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í starfseminni.

23. september 2021

Glæsileg starfsstöð Veitna á Vesturlandi tekin í notkun

Ný starfsstöð Veitna við Lækjarflóa á Akranesi er opnuð formlega. Nýja byggingin er um 1000 fm að stærð og gjörbyltir allri vinnuaðstöðu starfsfólks á Vesturlandi en það hefur undanfarin fjögur ár unnið í skrifstofurými í gámum eftir að mygla kom upp í húsnæði þess.

27. október 2021

Álver nýtir Carbfix tæknina í fyrsta sinn

Rio Tinto og Carbfix taka höndum saman um að fanga kolefni frá álveri ISAL við Straumsvík og binda það varanlega sem steindir í bergi í grennd við álverið.

27. október 2021

Allt að 10,7% lækkun á tengigjöldum heimlagna

Veitur lækka gjaldskrá fyrir tengingar heimlagna til nýrra viðskiptavina hitaveitu, rafveitu og vatnsveitu. Lækkunin nemur frá 2,2% til 10,7%. Breytingin tekur gildi í byrjun desember.

2. nóvember 2021

Gagnaveita Reykjavíkur heitir nú Ljósleiðarinn

Eftir að hafa komið fram undir merki Ljósleiðarans síðustu sjö ár er nafni Gagnaveitu Reykjavíkur formlega breytt í Ljósleiðarinn. Fyrirtækið rekur víðfeðmt ljósleiðaranet og er enn á fullu í uppbyggingu. Öll stærstu fjarskipta- og efnisveitufyrirtæki landsins bjóða þjónustu sína um net Ljósleiðarans og hefur fyrirtækið verið lífæð samkeppni á fjarskiptamarkaði síðustu ár.

3. nóvember 2021

Orka náttúrunnar á COP26

Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna, COP26, hefst í Glasgow. Fulltrúar frá Orku náttúrunnar verða á svæðinu og munu beita sér fyrir því að halda upplýstri umræðu um vandann sem þjóðir standa frammi fyrir sem og að mynda tengsl og taka þátt í viðburðum.

4. nóvember 2021

Birna formaður stjórnar Ljósleiðarans

Birna Bragadóttir tekur við formennsku í stjórn Ljósleiðarans, fjarskiptafyrirtækis sem lagt hefur ljósleiðaratengingar til fleiri en 100 þúsund heimila á Íslandi og er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur. Birna hefur átt sæti í stjórn fyrirtækisins, sem áður hét Gagnaveita Reykjavíkur, frá árinu 2019.

5. nóvember 2021

Samið um 600 milljóna króna Evrópustyrk til Carbfix

Dirk Beckers, framkvæmdastjóri aðgerða Evrópusambandsins í loftslagsmálum, og Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix, skrifa undir tæpra 600 milljóna króna styrktarsamning nýsköpunarsjóðs sambandsins við frekari þróun Carbfix-kolefnisbindingaraðferðarinnar við Hellisheiðarvirkjun Orku náttúrunnar.

13. október 2021

Krónprins Dana kynnir sér umhverfisvæna orku á Hellisheiði

Friðrik krónprins Danmerkur heimsækir Hellisheiðarvirkjun Orku náttúrunnar þar sem hann fór fyrir danskri viðskiptasendinefnd sem er að kynna sér orkumál og kolefnisförgun Carbfix við virkjunina.

23. nóvember 2021

ON hafði betur og fær að opna Hverfahleðslurnar

Á næsta ári verða liðin hundrað ár síðan rafstöðin í Elliðaárdal var vígð. Í tilefni þess ætlar OR að glæða dalinn enn frekara lífi með opnun sögu- og tæknisýningar undir merkjum Elliðaárstöðvar. Torfan við Rafstöðvarveg fær þá nýtt hlutverk þar sem þessi merkilega saga okkar verður sögð með fjölbreyttri og fræðandi upplifun, bæði innan dyra og í ævintýralegu umhverfi dalsins.

10. desember 2021

Er rafmagnsskortur á Íslandi í dag?

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, skrifar opinbera grein. Segir stutta svarið vera já. Annars þyrfti ekki að skerða afhendingu á rafmagni til stórnotenda. Ástæðan er ekki sú að það vanti fleiri og stærri virkjanir heldur fyrst og fremst skortur á vatni til að keyra þær.

14. desember 2021

Sterk staða kvenna hjá OR samstæðunni

Áhrif kvenna innan orkufyrirtækja eru mest hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem gerð var af endurskoðunarfyrirtækinu Ernst & Young fyrir Konur í orkumálum.