S5 Siðareglur birgja

Styður heimsmarkmið
Sameinuðu þjóðanna
Heilsa og vellíðan Ábyrg neysla

Það er stefna Orkuveitu Reykjavíkur að:

  • Beita opnum útboðum við kaup á vörum, þjónustu og verkframkvæmdum. Í útboðum verði tekið tillit til sjálfbærnisjónarmiða og að hagstæðasta tilboði sé tekið. Að öðrum kosti skal beita öðrum innkaupaaðferðum í samræmi við gildandi lög og reglur.
  • Innkaupareglur og innkaupaaðferðir séu skýrar og gagnsæjar.
  • Gæta jafnræðis, gagnsæis og hagkvæmni við öll innkaup.
  • Við innkaup og rekstur samninga skuli taka tillit til sjálfbærnisjónarmiða, s.s. gæða-, heilbrigðis-, mannréttinda-, umhverfis-, upplýsingaöryggis- og öryggissjónarmiða.

Siðareglur birgja

Skerpt var á sjálfbærnimarkmiðum þessarar stefnu árið 2020 og á árinu 2021 gaf fyrirtækið út siðareglur fyrir birgja OR, sem byggðar eru á innkaupastefnunni og tíu grundvallarreglum Global Compact, sem OR á aðild að. Samhliða var mótað verklag um viðbrögð OR við upplýsingum um frávik.

Kröfur samsvarandi siðareglunum er að finna í skilmálum allra útboða á vegum OR og markmið OR með útgáfu siðareglnanna er að þær sjálfbærnikröfur sem gerðar eru í útboðum nái einnig til smærri birgja.

Í árslok 2021 höfðu 96 birgjar staðfest að þeir hlíttu siðareglunum.

Á árinu 2021 voru 56% innkaupa samstæðunnar að undangengnu útboði. Samsvarandi hlutfall 2020 var 61% og skýrist munurinn einkum af auknum kaupum á raforku til endursölu.

heimlagnir

Kolefnisspor keyptrar vöru og þjónustu

Við mat á tilboðum tekur OR tillit til fleiri þátta en verðs og á árinu 2021 var áfram unnið að því að kalla eftir kolefnisspori keyptrar vöru eða þjónustu. Þetta er sérstaklega mikilvægt við kaup á þjónustu verktaka þar sem verulegur hluti kolefnisspors fyrirtækjanna í samstæðu OR er vegna olíubrennslu á vinnuvélum við verklegar framkvæmdir. Talsvert verk er óunnið við orkuskipti á vinnuvélum.

Keðjuábyrgð og aðgerðir gegn kennitöluflakki

OR hefur innleitt keðjuábyrgð í verksamningum í því skyni að standa vörð um réttindi starfsfólks verktaka og undirverktaka þeirra. Verktakamat er byggt á frammistöðu þeirra í öryggismálum, umhverfismálum, gæðum verks og gagnaskilum. Ef frammistaða í verktakamati er óviðunandi er viðskiptum hætt tímabundið.

Ekkert tilvik var á árinu 2021 um að tilboði væri hafnað vegna gruns um kennitöluflakk en einu tilboði í verðkönnun á vegum OR var hafnað á árinu vegna óviðunandi niðurstöðu úr verktakamati. Þá beið bjóðandinn afplánunar dóms fyrir brot gegn hegningarlögum.