Miðlun þekkingar

Í starfsemi OR, þar sem lögð er áhersla á stöðugar umbætur, verður til margháttuð þekking sem nýst getur öðrum. Ræðst það meðal annars af;

  • forystu fyrirtækja innan samstæðunnar í jarðhitanýtingu,
  • að Veitur eru langstærsta fyrirtæki sinnar tegundar á landinu og
  • að Ljósleiðarinn er með útbreiddasta ljósleiðaranet landsins.

OR lítur á það sem hlutverk sitt að miðla reynslu og þekkingu til annarra sem geta haft not af.

Kórþónuveirufaraldurinn hefur haft nokkur áhrif á þennan þátt í starfi samstæðunnar. Árlegur Vísindadagur, þar sem ýmis þróunarverkefni eru kynnt, féll niður hvorttveggja árið 2020 og 2021 og fyrirhugaðar heimsóknir skólabarna í Jarðhitasýningu ON í Hellisheiðarvirkjun og í Elliðaárstöð urðu stopulli en ráð var fyrir gert.

Elliðaárstöð.jpg

Elliðaárstöð - Yfirlitsmynd af svæði væntanlegrar sögu- og tæknisýningar.

Framtíðin

Hvað mun breytast á næstu 100 árum? Þessarar spurningar var spurt í þáttaröð sem OR fékk Berg Ebba framtíðarfræðing til að halda utan um var miðlað á netinu. Þættirnir urðu fjórir talsins og var í hverjum þeirra rætt við sérfræðinga innan og utan samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur. Loftslagsváin var viðfangsefni fyrsta þáttarins og þar var rætt við þau Andra Snæ Magnason, rithöfund og dr. Eddu Sif Pind Aradóttur framkvæmdastýru Carbfix. Smelltu hér til að komast í tengla á alla þættina fjóra.

Rafbílafundur

Snemma árs 2021 gekkst Orkuveita Reykjavíkur fyrir rafrænum fræðslufundi um rafbíla og orkuskipti í samgöngum. Hljóðláta byltingin er hafin var yfirskrift fundarins og Hafrún Þorvaldsdóttir sérfræðingur hjá ON og Gunnar Dofri Ólafsson umsjónarmaður hlaðvarpsins Leitin að peningunum héldu erindi. Auk þess heyrðum við í Unni Berge frá norska rafbílasambandinu sem fór yfir árangur norðmanna í þessum málum.

Hér er erindi Gunnars Dofra.

Hvað getum við gert?

Þetta er heiti þáttaraðar á RÚV um loftslagsmál og styrkti Orkuveita Reykjavíkur gerð þáttanna. Þeir eru sjálfstætt framhald þáttanna „Hvað höfum við gert?“ Í þessum stuttu, hnitmiðuðu þáttum er fjallað um fjölbreyttar lausnir við loftslagsvandanum, þar á meðal Carbfix.