U5 Samsetning orku

Helstu orkugjafar

Samstæða OR vinnur endurnýjanlega orku, rafmagn og heitt vatn til húshitunar, úr jarðvarma og vatnsafli og notar hluta þessarar orku í starfsemi sína. Helstu orkugjafar sem eru nýttir í starfseminni eru rafmagn og heitt vatn og er um 99,9% endurnýjanlega orku að ræða.

Hjá samstæðu OR eru kortlögð áhrif loftslagsvár á starfsemi samstæðunnar því viðnámsþróttur veitukerfa í þessa veru hefur bein áhrif á getu fyrirtækisins til að starfa og vera grunnur að lífsgæðum íbúa og atvinnulífs. Sjá nánari umfjöllun um áhrif loftslagsvár í kafla U8 um loftslagseftirlit stjórna og kafla U9 um loftslagseftirlit stjórnenda.

Endurnýjanleg orkukræfni

Orkukræfni er skilgreind sem orkuþörf á hverja einingu af öðrum kennitölum í viðkomandi rekstri, til dæmis framleiðslu, tekjur eða mannafla.

Orkukræfni samstæðu OR er mikil, enda þarf mikla orku til að knýja veitukerfi og virkjanir. Nánast öll sú orka sem þessi starfsemi krefst er fengin úr endurnýjanlegum orkugjöfum, það er á móti hverju MJ sem OR nýtir af óendurnýjanlegri orku eru 1100 MJ endurnýjanleg.