Bjarni Bjarnason
Það er oft erfitt að átta sig á því hvenær bylting er orðin, hvenær hún stendur yfir og þá hvaða varanlegu breytingar muni sitja eftir að byltingu lokinni. Hér er fjallað um fjögur svið þar sem gagngerar breytingar standa yfir og við þurfum að átta okkur á hvert leiða; breytinguna á vinnustöðunum, sjálfvirkni í rekstri og þjónustu, orkuskipti og loftslagsmál.
Vinnustaðir eru að breytast hraðar en okkur óraði fyrir. Sú illa nauðsyn, sem kórónuveirufaraldurinn knúði okkur til, að fækka þeim mikið sem koma saman, hefur á lygilega skömmum tíma tvístrað vinnu um allan bæ, allt land og jafnvel allan heim, sérstaklega skrifstofuvinnunni. Hópar vinnufélaga sem áður hittust yfir kaffisopa að morgni dags hittast ekki mánuðum eða misserum saman. Mikilvægi vinnustaðarins í félagslegri tilveru okkar hefur með þessu minnkað en fjöldi kannana hefur sýnt að starfsfólks tekur góðan anda og sanngjarnan stjórnanda oftast fram yfir hærri laun. Við höfum fundið fyrir þessu hjá OR-samstæðunni. Tengsl fólks við vinnustaðinn og vinnufélagana hafa breyst. Faraldurinn hefur ef til vill líka breytt mati fólks á því hvað skipti mestu máli í lífinu sjálfu og hvaða sess vinnan eigi í sjálfsmynd fólks.
Á árinu 2021 gerðu fyrirtækin í OR-samstæðunni fjölda samninga við starfsfólk sem í fólst í senn heimild starfsmanns – sem eins má kalla skuldbindingu – til að vinna annarsstaðar en á hefðbundnum vinnustað tiltekinn dagafjölda í viku, á mánuði eða á árinu. Þá auglýstu fyrirtækin í samstæðunni í fyrsta skipti eftir fólki í störf án staðsetningar.
Tæknin til að láta þetta verklag ganga upp hefur verið fyrir hendi árum saman. Það var veiruskömmin sem í raun knúði okkur til að nýta hana og nú mun reyna á okkur sjálf hvort við berum gæfu til að nýta okkur þessa tækni til farsældar eða hvort hún verður klafi á okkur. Afstaða til þessara breytinga er mjög einstaklingsbundin og að sama skapi mismunandi hvernig fólk sér vinnu sína fyrir sér að faraldrinum afstöðnum. Þar mun reyna á atvinnurekendur að leiða mótun breyttra vinnustaða þannig að breytingarnar, sem þegar eru orðnar og eiga enn eftir að verða, leiði til aukinnar farsældar og ánægju starfsfólks.
Tengdar þessari þróun, en þó annars eðlis, eru margvíslegar breytingar vegna aukinnar sjálfvirkni. Hún hefur breytt störfum og eytt störfum. Þannig sjáum við þessa dagana að störf álesara eru að leggjast af. Aukinn sjálfsálestur viðskiptavina Veitna hafði þegar fækkað talsvert í starfsgreininni. Útskipti eldri orkumæla, sem nú er hafin, munu færa álesara í hóp vatnsbera og annarra stétta sem breytt tækni gerði óþarfa.
Mælaskiptin hafa ekki síður áhrif á störf þeirra sem stýra veitukerfunum. Aukin gögn um notkun viðskiptavina gefa kost á betri stýringu veitnanna, árangursríkari álagsstýringu og þar með betri nýtingu þeirrar orku sem við sækjum í íslenska náttúru. Gervigreind kemur þar við sögu, þegar tölvur læra skynsamlegustu viðbrögð við breytingum á notkun viðskiptavina eða bresti á innstreymi í veitukerfin. Þetta kallar á öðruvísi þekkingu starfsfólks sem mun hjálpa okkur að nýta enn betur þau náttúrugæði sem okkur er trúað fyrir og við vinnum orkuna úr.
Árið 2021 voru í fyrsta skipti fleiri nýorkubílar skráðir á göturnar en brunabílar. Nýorkubílar er samheiti yfir tengjanlega rafbíla, vetnisrafbíla og metanbíla. Orkuveita Reykjavíkur hefur stutt þessa þróun með oddi og egg um árabil. Til marks um það er afgerandi forysta Orku náttúrunnar í uppbyggingu hleðslustöðva af ýmsu tagi fyrir rafbílaeigendur, vetnisframleiðsla sama fyrirtækis, styrkir OR og Veitna vegna uppbyggingar aðstöðu við fjölbýlishús, metanlögn Veitna úr Álfsnesi og áfram mætti telja. Ávinningurinn af þessari þróun er svo borðleggjandi og landsmenn margir svo jákvæðir fyrir honum að orkuskipti í samgöngum er þungamiðja markmiða íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum. Mikilvægi Carbfix í loftslagsmálunum verður heldur ekki ofmetið, hvort tveggja við að draga úr losun frá mengandi rekstri og nú einnig að sjúga koldíoxíð úr andrúmslofti til förgunar. Í því felst í raun að draga úr mengun sem þegar er orðin.
Þótt hér séu að opnast góð færi á smærra kolefnisspori þurfum við hvorttveggja að skapa okkur fleiri færi eigi loftslagsmarkmiðin að nást og að búa okkur undir atburði og þróun sem verða með þeim loftslagsbreytingum sem við erum þegar búin að valda. Rétt eins og með tækniþróunina, þá gengur sumum vel en öðrum miður að fást við breytingarnar, taka þátt í þeim eða leiða þær. Þessum mismun – fjölbreytileika okkar mannfólksins – verður að sýna skilning og virðingu um leið og við gætum að því grundvallarsjónarmiði sjálfbærrar tilvistar að börnunum okkar standi ekki síðri heimur til boða en okkur; að byltingarnar sem nú standa yfir éti ekki börnin sín.