Vatnsvernd og ábyrg vinnsla

Árið 2021 tryggðu vatnsveitur Veitna íbúum og fyrirtækjum á veitusvæðinu heilnæmt neysluvatn sem samræmist gæðastöðlum, ákvæðum laga og reglna og markmiðum Veitna.

Gæði neysluvatns í Reykjavík

Vatnsból Veitna eru fimmtán og er vatnið notað á höfuðborgarsvæðinu og á Vestur- og Suðurlandi. Vatnsból Orku náttúrunnar eru tvö. Dreifikerfi vatnsveitnanna þjónar alls um 45% þjóðarinnar. Markvisst hefur verið unnið að vatnsvernd, öðrum forvörnum og eftirliti til að tryggja gæði vatnsins.

Árið 2020 endurtengdu Veitur tvær vatnslindir í Hafnarfjalli fyrir Borgarnes. Settur var upp búnaður til að lýsa vatnið úr þessu vatnsbóli til að tryggja vatnsgæði. Með því eru örverur, sem geta borist í vatnsbólin í leysingum, gerðar óvirkar áður en vatninu er veitt út í dreifikerfið.

Þétt net vatnshæðarmæla er nú í eftirlitsholum vatnsstökusvæða Veitna á höguðborgarsvæðinu. Vegna þurrka var vatnsborð í Grenkrika í sögulegu lágmarki í maí árið 2021​. Áfram er unnið að verkefnum til að þekkja betur tengsl umhverfisþátta, örverumengunar og loftslagsbreytinga. Í kjölfar eldgossins í Geldingadölum og gróðurelda í Heiðmörk árið 2021 var ráðist í rannsóknir á breytingum á gæðum neysluvatns, en ekki varð vart við merkjanlegar breytingar. Ráðist var í frumgreiningu á áhrifum vinnsluaukningar á grunnvatni í Engidalskvísl við Hellisheiðarvirkjun og er niðurstaðna að vænta árið 2022. Til að vakta betur vatnsgæði var sýnataka aukin úr lindum við Nesjavelli árið 2021.

Lýsingartæki var sett upp á Grundarfirði í byrjun árs 2021. Undirbúningur fyrir borun tveggja tilraunaholna í Grábrókarhrauni og endurnýjun tveggja vinnsluholna í Seleyri hófst á árinu 2021.

Vatnsvernd

Vatnsverndarsvæði eru afmörkuð utan um vatnsból Veitna og Orku náttúrunnar. Fylgst er með vatnsverndarsvæðum, þar á meðal flutningi á olíu, bensíni og öðrum varasömum efnum í Heiðmörk. Slys og atvik vegna hættulegrar hegðunar innan vatnsverndarsvæða eru skráð, fjallað um þau og ráðist í úrbætur eftir því sem við á. Til að fyrirbyggja mengunarslys tekur starfsfólk Veitna, Orku náttúrunnar og verktakar sem vinna að framkvæmdum á vatnsverndarsvæðum umhverfisnámskeið áður en framkvæmd hefst. Þessi krafa er sett fram útboðsgögnum.

Til að minnka hættu á olíu- og efnaslysi á vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins hafa Veitur átt samráð við Vegagerðina, Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna um lokanir og úrbætur á vegum ásamt því að gera frekari grunnvatnsrannsóknir á svæðinu.