Samstæða OR hefur umsjón með tæplega 19.000 hekturum lands og eru tæpir 16.000 hektarar innan verndarsvæða. Það eru vatnsverndarsvæði, friðlýst svæði, svæði á náttúruminjaskrá eða svæði sem lúta sérstakri vernd. Um þessi svæði er fjallað í myndbandinu að neðan. Í viðauka er birtur listi yfir verndarsvæði og tegundir fugla og plantna á válista sem hafa þar búsvæði.
Frágangur og umgengni
Lögð er áhersla á góða umgengni, frágang jafnóðum í verkum eins og kostur er, endurheimt náttúrlegs umhverfis og minnkun sjónrænna áhrifa á virkjanasvæðum Orku náttúrunnar og athafnasvæðum Veitna, Carbfix, Ljósleiðarans og OR. Reglulega er skerpt á verklagi og fræðslu til að tryggja enn betri umgengni starfsfólks og verktaka, meðal annars á verndarsvæðum. Gróðurþekju er haldið til haga í framkvæmdum á grónu landi og hún nýtt til endurheimtar staðargróðurs vegna rasks. Þetta er gert í samvinnu við leyfisveitendur og í samræmi við markmið samstæðu OR.
Landgræðsla og skógrækt
Orka náttúrunnar gróðursetti um 6.000 birki og reynitré í um 4 hektara af landi í nágrenni Nesjavallavirkjunar árið 2021 og tæplega 6 hektarar af landi voru græddir upp með staðargróðri á rofsvæðum utan framkvæmdasvæða. Þetta er í samræmi við stefnu Orku náttúrunnar um stækkun landgræðslusvæða og skógrækt með innlendum trjátegundum.
Gönguleiðir á Hengli
OR hefur umsjón með um 130 km af merktum gönguleiðum á Hengilssvæðinu síðastliðin 30 ár eða frá gangsetningu Nesjavallavirkjunar. Fjöldi gesta heimsækir svæðið sem er vinsælt til útivistar allt árið, einkum í heimsfaraldri. Sumarið 2021 var lögð áhersla á að lagfæra gönguleiðir við Nesjavelli og verður haldið áfram með þá vinnu sumarið 2022.
Breytingar á hæð vatnsborðs í Elliðavatni
Í tengslum við umfangsmikla lagnavinnu Veitna neðarlega í farvegi Elliðaánna, var opnað fyrir lokur í Elliðavatnsstíflu í febrúar 2020 sem varð til þess að vatnshæð fór undir viðmiðunarmörk í tæpa viku. Árið 2021 varð ljóst að Hafrannsóknastofnun mun annast rannsóknir og vöktun á lífríki vatnsins til skamms tíma og víðtækari vöktun til lengri tíma sem hefjast í janúar 2022.