Frá því aðrennslispípa Rafstöðvarinnar við Elliðaár brast, árið 2014, var tvísýnt um hvort raforkuvinnsla hæfist í stöðinni að nýju. Pípan var úrskurðuð ónýt, endurnýjun hennar dýr og vinnslugeta Rafstöðvarinnar lítil. Á árinu 2020 var formlega tekin sú ákvörðun að ekki yrði unnið rafmagn í stöðinni um fyrirséða framtíð en kapp lagt á uppbyggingu sögu- og tæknisýningar á athafnasvæði Orkuveitu Reykjavíkur í dalnum.
Elliðaárstöð
Elliðaárstöð er heiti þess verkefnis og er ný upplifun í Elliðaárdal þar sem börn og fullorðnir fræðast um sögu og vísindi í lifandi leik. Talsvert hefur verið byggt upp og svæðið endurmótað til að þjóna nýju hlutverki en samkomuktakmarkanir síðustu missera hafa tafið að starfsemin nái skriði. 100 ára afmæli Rafstöðvarinnar, þann 27. júní 2021, var lágstemmt vegna þessa.
Endurheimt náttúrugæða
Nú þegar ljóst er að rafmagnsvinnslu er hætt ber Orkuveitu Reykjavíkur lagaskylda til að skila niðurlagningaráætlun þar sem gerð er grein fyrir hvernig „umhverfið [er] fært eins og kostur er til fyrra horfs,“ eins og segir í vatnalögum. Nú standa yfir rannsóknir á vegum Orkuveitu Reykjavíkur á lífríki og mannvirkjum til undirbúnings slíkri áætlun.
Á árinu 2020 var hætt því inngripi í náttúruna að fylla og tæma Árbæjarlón á víxl að hausti og vori. Það var umdeilt en rannsóknir á árinu 2021 benda til að sú aðgerð að hætta að skapa slíkan óstöðugleika í lífríki ánna hafi þegar komið löxum í ánni til góða.
Veitur unnu nokkur myndbönd á árinu 2021 þar sem sjónum var beint að breytingum á ferðamáta ungs fólks. Strætó er á meðal þessa og hér er litið um borð í splunkunýjan rafmagnsstrætó sem merktur var Elliðaárstöð í tilefni 100 ára afmælis Rafstöðvarinnar.