Ábyrg umgengni og vinnsla úr lághitaauðlindum

Veitur reka þrettán hitaveitur; eina á höfuðborgarsvæðinu sem er sú stærsta, fimm á Vesturlandi og sjö á Suðurlandi. Hitaveiturnar þjóna um 2/3 hluta þjóðarinnar. Árið 2021 var vinnsla á lághitasvæðum Veitna á höfuðborgarsvæðinu og flestum dreifisvæðum á landsbyggðinni í samræmi við skilgreiningu og markmið fyrirtækisins og ákvæði í lögum og reglugerðum.

Höfuðborgarsvæðið

Sumarið 2021 var heitu vatni frá jarðvarmavirkjunum veitt til alls höfuðborgarsvæðisins. Með þessari aðgerð var létt tímabundið á vinnslu úr lághitasvæðum á Reykjum, í Reykjahlíð, Laugarnesi og Elliðaárdal sem gerði það mögulegt að safna meiri forða í lághitasvæðunum fyrir veturinn. Áframhald verður á þessum aðgerðum næstu sumur til að minnka sumarvinnslu úr lághitasvæðunum og nýta betur þann varma sem framleiddur er í virkjunum. Unnið er að því að auka enn frekar hlut hitaveituvatns frá virkjunum á Hengilssvæðinu. Árið 2021 var hann um 60% af heildarvinnslu og hefur aldrei verið hærri. Einnig verða dælur í öflugum holum á lághitasvæðunum stækkaðar á næstu misserum til að auka afkastagetu í hámarksálagi. Unnið er að heildarendurskoðun áætlana um framtíð hitaveitu á höfuðborgarsvæðinu til að tryggja afhendingaröryggi næstu áratugi.

borhola_reykjadal

Ein af lághitaborholum Veitna í Reykjadal í Mosfellsbæ.

Vesturland

Ástand lághitasvæða á Vesturlandi er almennt gott. Sívaxandi eftirspurn hjá Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar veldur því að veitan stendur tæpt í hámarksálagi en borun nýrrar holu við Hellur í Bæjarsveit á að veita nauðsynlegt viðbótarafl til að bæta stöðuna þar umtalsvert.

Suðurland

Á Suðurlandi hefur framleiðslugeta verið aukin í Grímsnes-, Ölfus- og Þorlákshafnarveitu. Verkefni til að auka framleiðslugetu enn frekar í Grímsnesveitu með virkjun nýrrar holu er hafið þannig að framleiðslugeta þar mun fljótlega þrefaldast frá því sem verið hefur. Einnig er í undirbúningi stækkun í Hveragerði með tengingu við Austurveitu sem eykur aflgetu á báðum svæðum.

Afla þarf meira heits vatns fyrir Rangárveitu sem þjónar m.a. þéttbýliskjörnunum Hellu og Hvolsvelli. Í sumar verður dælugeta aukin með nýrri djúpdælu í Laugalandi og mun toppafl hitaveitunnar aukast verulega fyrir þau svæði þar sem eftirspurnin er mest. Frekari verkefni eru í undirbúningi í samræmi við heildarendurskoðun áætlana sem unnin var á síðasta ári.