Veikindi starfsfólks
OR hefur stefnu í öryggis- og heilsumálum sem er rýnd árlega af stjórn OR. Eitt af markmiðum OR samstæðunnar er að draga úr fjarveru starfsfólks vegna slysa og veikinda. Markmiðið er að hún verði komin niður fyrir 3,6% af heildarfjölda vinnustunda fyrir árslok 2023. Þetta markmið náðist strax á kórónuveiruárinu 2020 og var í árslok 2021 3,1%.
Veikindadögum fækkaði mjög á árinu 2020 og var það rakið til tvenns konar áhrifa af kórónuveirufaraldrinum. Í fyrsta lagi vann starfsfólk að verulegu leyti heiman frá sér og má gera ráð fyrir að það hafi sinnt störfum sínum þrátt fyrir veikindi sem annars hefðu valdið fjarveru frá vinnu. Hins vegar höfðu almennar sóttvarnir vegna faraldursins þau áhrif að ýmsar umgangspestir, sem valdið hefðu veikindafjarveru, voru fátíðar og náðu lítilli útbreiðslu vegna samkomutakmarkana.
Þessara áhrifa gæti enn hvað varðar skammtímaveikindi á árinu 2021 en hugsanlegt er að aukið álag af ýmsu tagi vegna faraldursins hafi aukið langtímaveikindi á nýjan leik.
Áfram var unnið að heilsueflingu með hvatningu til starfsfólks að huga að heilsu sinni, andlegri og líkamlegri, í því fordæmalausa ástandi sem af faraldrinum hlaust. Skipulögð voru rafræn námskeið og fyrirlestrar af ýmsu tagi til að virkja starfsfólk til heilsueflingar. Tekinn var frá tími í dagbókum alls starfsfólks til að minna það á mikilvægi þess að standa upp frá heimavinnunni og fólk var hvatt til að gæta sérstaklega að skilum á milli vinnu og einkalífs.