Árið 2021 voru skráð liðlega 148 þúsund erindi til sameiginlegs þjónustuvers OR, Veitna, Orku náttúrunnar, Ljósleiðarans og Carbfix og fjölgaði þeim lítillega frá árinu áður. Flest voru frá viðskiptavinum sem voru að skila mælaálestri sjálfir og þar á eftir komu fyrirspurnir og önnur erindi vegna reikninga. Í myndritinu sést skipting erindanna eftir málaflokkum og í viðhengi að neðan er sérstök grein gerð fyrir ábendingum og kvörtunum vegna umhverfismála. Þar er líka sagt frá tilkynningum til leyfisveitenda og tilefnum þeirra.
Bundnar eru vonir við að innleiðing sjálfvirks álesturs orkunotkunar, sem hófst á árinu 2021, dragi verulega úr þörf fyrir fyrirspurnir viðskiptavina af því tagi. Þær voru 37% samskipta við þjónustufulltrúa árið 2021. Unnið er skipulega að því, samhliða því að eldri mælum er skipt út, að sjálfsafgreiðsla viðskiptavina verði sem greiðust.
Samstarf við leyfisveitendur, hagsmunaaðila og viðskiptavini er starfsfólki samstæðu OR mikilvægt því slík samvinna beinir athygli og áhersluatriðum að því sem skiptir fólk mestu máli. Dæmi um slíkt eru reglubundnir fundir með leyfisveitendum og miðlun upplýsinga frá OR samstæðunni á samfélagsmiðlum.