Að draga úr losun frá samgöngum er eitt helsta sóknarfæri Íslendinga í loftslagsmálum og raunar einnig í loftgæðamálum í þéttbýli. Vegna eðlis starfsemi OR og dótturfélaga getur samstæðan lagt gott til með því að stuðla að orkuskiptum í samgöngum.
Hleðsluáskrift og hverfahleðslur
Frá því Orka náttúrunnar setti upp fyrstu hraðhleðslustöðina hér á landi, árið 2014, hefur fyrirtækið verið brauðryðjandi í uppbyggingu innviða fyrir orkuskipti í samgöngum. Sem betur fer hafa fleiri fyrirtæki slegist í hópinn og sett upp eigin hleðslustöðvar. ON leggur nú áherslu á að hjálpa þeim eiga af einhverjum ástæðum erfitt með a komast yfir hjallann eða skipta yfir í rafmagnsbíl með því að bjóða Heimahleðslu í áskrift og með uppbyggingu á Hverfahleðslum ON. Til dómsmáls kom á árinu 2021 vegna þeirra síðartöldu. Þá hafði kærunefnd útboðsmála úrskurðað útboð Reykjavíkurborgar á hleðslum ON ólöglegt og var fyrirtækinu gert að loka þeim sem þegar höfðu verið settar upp. Eftir flýtimeðferð hjá hérðasdómi var þessari ákvörðun hnekkt og hverfishleðslurnar opnaðar að nýju. Þetta skýrir sveiflur á fjölda hleðslustöðva á árinu.
Árið 2021 var fyrsta árið sem nýorkubílar, það er bílar sem ekki brenna jarðefnaeldsneyti, voru fleiri á meðal nýskráðra bíla en brunabílarnir.
Fjöldi rafbíla á Íslandi og hleðslustöðva ON
Styrkir til húsfélaga
Vorið 2019 var undirritað samkomulag milli Reykjavíkurborgar, Orkuveitu Reykjavíkur og Veitna um stórfellda uppbyggingu innviða í borginni fyrir rafbílaeigendur. Samkomulagið felur í sér að Veitur leggja til heimtaugar fyrir hleðslubúnað við starfsstöðvar sveitarfélagsins og eftir ábendingum íbúa. Þá leggja OR og Reykjavíkurborg fé í sjóð til að styrkja húsfélög fjölbýlishúsa til að koma upp hleðslubúnaði fyrir íbúa. Veitur og OR gerðu síðan samsvarandi samning við Akraneskaupstað.
Taflan að neðan sýnir greiðslur OR til húsfélaga samkvæmt samningnum.
2019 | 2020 | 2021 | |
---|---|---|---|
Í Reykjavík | 387.863 kr. | 16.266.234 kr. | 15.579.931 kr. |
Á Akranesi | 2.430.414 kr. | 932.556 kr. |
Rafvæðing Reykjavíkurhafnar
Veitur, Faxaflóahafnir og ríkið sömdu á árinu 2020 um að leggja 100 m.kr. hvert um sig í fyrsta áfanga eflingar rafmagnstenginga fyrir stór skip. Verkefnið er í samræmi við stefnu Íslands í loftslagsmálum en forsenda öflugri tenginga er bygging nýrrar aðveitustöðvar Veitna við Sægarða og hún mun einnig efla afhendingaröryggi rafmagns víða um höfuðborgarsvæðið.
Orka náttúrunnar kíkti í heimsókn til nokkurra rafbíleigenda á árinu til að forvitnast meðal annars um það hvernig gengi að reka rafbílinn. Ein þeirra sem tekið var hús á var Sóley Kristjánsdóttir, sem margir þekkja betur sem DJ Sóley.