Loftslagsmarkmið
Samstæða OR stefnir á kolefnishlutleysi árið 2030.
Árið 2021 dró úr losun gróðurhúsalofttegunda frá samstæðu OR og vóg þyngst að uppitími lofthreinsistöðvar við Hellisheiðarvirkjun var meiri en árið 2020. Hlutfallsleg föngun og binding koltvíoxíðs frá Hellisheiðarvirkjun í berg var um 30% af útblæstri virkjunarinnar, sem er aukning frá því árið 2020. Raf- og metanvæðing bílaflota fyrirtækisins skiptir einnig miklu máli og að Veitur vinna að verkefnum til að bæta viðnámsþrótt veitukerfa vegna loftslagsvár.
Losun vegna ferða starfsfólks í og úr vinnu og vegna flugferða starfsfólks hefur dregist verulega saman frá því fyrir COVID-19 heimsfaraldurinn. Stór hluti starfsfólks hefur unnið heiman frá og dregið hefur verulega úr flugferðum vegna faraldursins.
OR samstæðan réðst í að kolefnisjafna bílaflota, flug o.fl. hjá samstæðunni vegna ársins 2021 með endurheimt votlendis á vegum Votlendissjóðs og með þróunaraðstoð á vegum Sameinuðu þjóðanna sem felst í að bæta eldunaraðstöðu í Malaví.
Upprunaábyrgðir raforku hafa fylgt allri raforkunotkun samstæðunnar OR 2016 til 2021. Það var ekki raunin árið 2015 vegna raforkunotkunar Veitna, OR og GR og skýrir það meiri losun það ár.
Útreikningar á losun gróðurhúsalofttegunda eru í samræmi við staðalinn Greenhouse Gas Protocol – Corporate Accounting and Reporting Standard.
Bein og óbein losun samstæðu OR, binding með landbótum og kolefnisjöfnun, 2015-2030
Bein og óbein losun gróðurhúsalofttegunda
Árið 2021 var umfang 1 eða bein losun frá kjarnastarfsemi samstæðu OR rúmlega 47.500 tonn CO2 ígilda. Umfang 2 eða óbein losun vegna notkunar rafmagns og hita í kjarnastarfsemi samstæðu OR var engin því samstæðan framleiðir rafmagn inn á landsnetið og er gerð grein fyrir losuninni í umfangi 1. Umfang 3, óbein losun, var um 1.100 tonn CO2 ígilda. Þetta eru ekki tæmandi upplýsingar um umfang 3 því ekki er tekið tilli til framleiðslu aðfanga. Verkefni er hafið til að skoða þátt innkaupa í kolefnisspori samstæðu OR. Stefnt er á innleiðingu loftslagsmála betur í innkaupastarfsemi samstæðunnar en þegar hafa verið tekin skref til þess að fá verktaka, birgja og framleiðendur til þess að upplýsa OR um kolefnisspor þeirra vara eða þjónustu sem verið er að kaupa.
Losun gróðurhúsalofttegunda frá samstæðu OR er um 1% af heildarlosun á Íslandi miðað við heildarlosun 2019 (Umhverfisstofnun, 2021).