Stjórnendur samstæðu OR meta og stýra loftslagstengdri áhættu hjá samstæðunni og greina stjórn OR frá þeirri hættu.
Forstjóri samstæðunnar fær mánaðarlegar uppfærslur um loftslagstengdan árangur frá umhverfisstýru OR. Hlutverk umhverfisstýru er meðal annars að hafa yfirsýn á loftslagstengdum málefnum. Þetta felur einnig í sér stöðugt eftirlit á árangri OR samstæðunnar gagnvart loftslagsmarkmiðum fyrirtækisins.
Samstæða OR hefur greint og metið alvarleika áhrifa vegna loftslagsbreytinga á starfsemi sína og viðeigandi viðbrögð við þeim og hóf árið 2021 að innleiða þessar áhættur skýrar inn í áhættugrunn samstæðunnar. Með því að leggja áherslu á veitukerfin hafa verið greindir möguleikar til aðlögunar að meiri úrkomuákefð, leysingum, breytingum á hitastigi og sjávarborðshækkun. Í því sambandi fylgist vatnsveitan með örverumengun í neysluvatni í rauntíma þannig að unnt sé að grípa til forvarna og tryggja gæði þess. Ennfremur leggur hitaveitan mat á eftirspurn eftir heitu vatni til framtíðar og bætta nýtingu þess til að tryggja afhendingaröryggi. Í fráveitunni er horft til spár um sjávarborðshækkun og úrkomuákefðar í áætlanagerð. Auk þess er horft til blágrænna ofanvatnslausna til að veita regnvatni af götum og vegum og hreinsa það áður en það rennur út í ár og vötn; aðgerða sem einnig auka líffræðilegan fjölbreytileika og bæta borgarumhverfi. Þessi verkefni eru í senn mótvægisaðgerðir og aðlögun vegna loftslagsvár. Veitur vinna að innleiðingu þeirra í samstarfi við sveitarfélög.
Þar sem starfsemi samstæðu OR felur í sér byggingu og rekstur innviða, sem gert er ráð fyrir að endist í yfir 50 ár, þarf samstæðan að taka tillit til þessarar langtíma loftslagsáhættu í rekstri sínum.